UK flag
Search

Search our shop

Æsir fjölskyldan

Síðustu tíu ár hafa hjónin Eva María og Birna Hrönn ásamt Hannesi Sasa rekið ferðaskrifstofuna og viðburðafyrirtækið Pink Iceland sem var stofnað í þeim tilgangi að aðstoða hinsegin fólk og vini þeirra á ferðalögum sínum til Íslands auk þess sem fyrirtækið varð fljót stærsti brúðkaupsskipuleggjandi landsins.
Hjónin Mathew og Olivia kynntust fyrirtækinu þegar þau giftu sig á Íslandi árið 2015 í miðju verkfalli hjá Matvælastofnun sem þýddi að engin blóm var að fá á landinu! En sú epíska saga er best sögð yfir vínglasi eða þremur. Það var einmitt yfir vínglasi eftir brúðkaup þeirra Oliviu og Mat að úr varð vinátta milli ofangreindra sem leiddi til loforðs um frekari samvinnu.

Fimm árum seinna kom óvænt tækifæri þegar Pink Iceland þurfti að leggjast í hýði í miðjum heimsfaraldri Covid. Mathew og Olivia sátu í sjálfskipaðri sóttkví í Colorado þegar símtalið kom. Pink Iceland var á línunni og lagði til samstarf um þróun og sölu húðvörulínu með CBD olíu.

Það er óhætt að segja að hér hafi orðið til draumateymi en Mathew er einn helsti sérfræðingur Bandaríkjanna í vöruþróun og rannsóknum á CBD olíu og Olivia er sérfræðingur í vörumerkjaþróun og hönnun verslunarrýma. Kunnátta þeirra í bland við tengslanet og frumkvöðlakraft Pink Iceland varð til þess að 10 mánuðum eftir fyrsta símtalið opnaði verslunin Æsir á Hverfisgötu 39 með glænýja og græðandi vörulínu.

Gildi eigenda um jafnrétti, þakklæti, heiðarleika, kærleika og virðingu lita vöruúrval og starfsemi fyrirtækisins. Vörulínan er lífræn, laus við paraben og súlföt og er ekki prófuð á dýrum auk þess að vera vegan.